Ágæti sauðfjárbóndi
Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga og Sláturhús KVH gefa nú út verðskrá fyrir sláturtíð 2016. Verðskráin tekur gildi 12. september.
Mikið hefur borist af sláturfjárloforðum og er búið að skipuleggja slátrun vel fram í október. Eins og áður hefur verið kynnt þá greiðist ekki álag á einstakar vikur og því sama verðskrá sem gildir frá byrjun og út sláturtíð.
Að þessu sinni er um lækkun að ræða á verðskrá frá sláturtíð 2015 eða 8% lækkun á lambakjöti og rúmlega 30% lækkun á ærkjöti. Ef betur tekst til við sölu á afurðum heldur en útlit er fyrir á þessum tímapunkti, munum við skoða hvort hægt sé að greiða uppbætur á verðið. Það mun þó að öllum líkindum ekki liggja fyrir fyrr en í mars á næsta ári.
Ástæður lækkunar er fyrst og fremst óhagstæðar aðstæður í útflutningi, styrking krónunnar, veiking annara gjaldmiðla, lækkun á mörkuðum og hrun á hliðarafurðamörkuðum, s.s gærum. Ekki hefur tekist að afla leyfis fyrir afurðastöðvarnar til viðskipta með afurðir til Rússlands og takmarkar það verulega afsetningarmöguleika okkar á ærkjöti, en á sínum tíma tókst okkur að hækka verð á ærkjöti talsvert vegna góðra viðskipta við Rússland. Í raun er þörf á enn meiri lækkun eins og þetta lítur út í dag, en viðræður standa enn yfir við okkar stæðstu kaupendur á erlendu mörkuðunum og var von okkar að ná að loka þeim samningum áður en við gæfum út verð. Það hefur ekki gengið eftir og því er ákveðin óvissa eftir í þessu hjá okkur.
Sala á innanlandsmarkaði hefur gengið ágætlega og birgðir lambakjöts í landinu nokkuð minni en árið á undan. Lambakjöt hefur hinsvegar ekki fylgt verðþróun í landinu og á því þarf að verða breyting, aðrar kjöttegundir hafa tekið talsverðum hækkunum umfram lambakjötið á undanförnum árum.
Eins og fram hefur komið þá eru aðstæður ekki með okkur á erlendum mörkuðum en við höfum fulla trú á að það muni leyta jafnvægis og um tímabundið ástand sé að ræða. Á sama tíma og gengisþróun er okkur óhagstæð til útflutnings þá eiga aðstæður til innflutnings að vera okkur hagstæðar og því ættu bændur að njóta þess í kaupum á vélum og tækjum, einnig rekstrarvörum s.s áburði, rúlluplasti og olíu eins og raunin hefur orðið síðastliðin misseri.
Okkar starfsfólk mun nú sem endranær leggja sig fram við að hámarka verðmæti á ykkar afurðum og vinna þær á eins hagkvæman hátt og kostur er á hverjum tíma.
Við óskum eftir góðu samstarfi við bændur nú sem hingað til og vonum að haustið verði gott.
Verðskránna má nálgast hér.
Til baka