Kaupfélag Skagfirðinga

Sláturtíð á tímum Kórónuveirufaraldurs

11.08.2020

Undirbúningur sláturtíðar er nú í fullum gangi og ljóst er að umgjörð hennar verður með öðru sniði en áður sökum Kórónuveirunnar. Allur undirbúningur miðast við að tryggja sem best sóttvarnir og reyna eftir fremsta megni að fyrirbyggja að upp komi smit meðal starfsmanna sem gæti haft áhrif á starfsemina. Mikilvægt er að ná að halda samfelldri slátrun út sláturtíðina og ná að ljúka henni á tilsettum tíma, undir lok október.

Samtakamáttur og góður skilningur er sá kraftur sem við þurfum með okkur, til að komast sem best í gegnum þetta. Unnið er að gerð viðbragðsáætlana sem taka mið að kröfum Almannavarna og Sóttvarnalæknis. Slík viðbragðsáætlun er í stöðugri endurskoðun í ljósi þróun faraldursins á hverjum tíma.

Eftirtalin atriði gilda fyrir okkar innleggjendur og þjónustuaðila í Kjötafurðastöð KS á komandi hausti:

  • Aðgangur að afurðastöðunni verður einungis heimilaður starfsfólki. Þetta þýðir að bændur geta ekki komið og framvísað sínu fé, né verið viðstaddir kjötmat. Eins og undanfarin ár þá eru vigtarseðlar og afreikningar komnir inná viðskiptavef KS samdægurs eða um leið og þeir eru tilbúnir.
  • Flutningur á sláturfé. Gæta þarf að tveggja metra reglunni þegar fé er sótt heim á bæi, sem og þegar því er skilað í sláturhúsrétt. Flutningsaðili má ekki koma inn í réttina. Starfsfólk sér um móttöku og gætir að tveggja metra reglunni í öllum samskiptum við flutningsaðila. Hvetjum við innleggjendur að hringja eða senda tölvupósta með frekari upplýsingum um heimtöku.
  • Mötuneytið. Verður einungis fyrir starfsfólk afurðastöðvarinnar og verður fyrirkomulag eftir settum tilmælum sóttvarnalæknis.
  • Skrifstofur afurðastöðvarinnar eru lokaðar aðgengi fyrir aðra en starfsfólk. Öll samskipti við starfsfólk þurfa að fara í gegnum síma eða tölvupóst. Þetta á við um samskipti við bændur, bílstjóra og aðra sem þjónusta starfsemina.
  • Afhending heimtöku. Heimtaka verður með svipuðu sniði og verið hefur. Þeir sem sækja, hringja á undan sér og fá afhendingu út fyrir dyr afurðastöðvarinnar. Mikilvægt að virða tveggja metra regluna.
  • Starfsfólk. Í haust fáum við eins og verið hefur erlenda starfsmenn aðallega frá Pólandi. Í þetta sinn koma ekki Nýsjálendingar og því munum við þurfa að þjálfa upp nýtt fólk í þær stöður. Búast má við að það komi eitthvað niður á afköstum hjá afurðastöðinni til að byrja með. Starfsfólki verður gert að vera með grímur þar sem ekki verður viðkomið tveggja metra reglunni. Reynt verður eftir fremsta megni að skipta upp starfssvæðum og halda aðskilnaði milli svæða.

Sem fyrr bendum við innleggendum að skoða heimasíðuna og fara yfir þau atriði sem ber að hafa í huga varðandi afhendingu og flutning, heimtöku, nýja innleggjendur o.s.frv.

Sláturtíðin er árlegt verkefni sem þarf að vinna. Það er ávallt markmið okkar að framkvæma hana vel og gera okkar besta. Það sama á við, ekki síst nú, þegar aðstæður eru meira krefjandi en áður. Við óskum eftir góðu samstafi við bændur á komandi hausti, eins og undanfarin haust og vonum að sláturtíð muni ganga vel.

Fyrir hönd Kjötafurðastöðvar KS

Ágúst Andrésson

Til baka

Hafa samband