Kaupfélag Skagfirðinga

Sláturtíðin

20.09.2020

Sláturtíð fór hægt af stað og þó svo búið sé að slátra frá 25. ágúst síðastliðinn þá er eingöngu búið að slátra um 25. þús fjár.

Meðalþyngd dilks er 17,2 kg., gerð 9,41 og fita 6,54.

Sem fyrr þarf að skerpa á nokkrum atriðum varðandi heimtöku og vísum við í reglur um heimtöku hér á heimasíðunni.

Beiðni fyrir heimtöku verður að hafa borist í síðasta lagi daginn fyrir slátrun. Ef um einhverjar sérstaka gripi er að ræða í heimtöku, þá verður að spreyja þá með lit, til auðkenningar, sem gefinn er upp á fylgibréfi að sé vegna heimtöku. Ekki verða dilkar leitaðir uppi úr holli ef eingöngu númerin eru gefin upp. Ef beðið er um verðminnstu skrokkana, þá er reynt að fara eins nálægt því eins og kostur er hverju sinni og breytingar á því ekki gerðar eftir á. Heimtakan er valin í kjötmatinu og eins og gefur að skilja er erfitt að finna út sem dæmi, 10 verðminnstu skrokkana af kannski 200 dilka holli. Þannig að líklegir skrokkar eru valdir og ekki hægt að breyta eftir á. Því bendum við innleggjendum enn einu sinni á að velja dilkana frekar sjálfir áður en sent er í sláturhús.

Inná Viðskiptavef KS má finna innlegg dagsins, undir afurðakaup, sama dag og slátrað er. Í lok dags eru allar upplýsingar um innleggið og afreikningur kominn inná vefinn. Biðlum við til innleggjenda að kíkja í lok dags þar inn eftir sínu innleggi. Jafnframt er hægt að biðja um millifærslu þar inni. Vefurinn er mjög þægilegur í notkun og sparar bæði vinnu og tíma allra aðila í afgreiðslu á vigtarnótum. Vigtarseðlar og afreikningar eru ekki prentaðir út nema sé þess óskað.

Fullorðnar ær og geitur verða ekki teknar í slátrun fyrr en eftir næstu mánaðarmót og helst ekki fyrr en í lokaferð til bónda, nema í undantekningartilfellum sem þarf að vera í samráði við Óla Viðar um. Viljum við biðja bændur um að virða þessa ákvörðun, þar sem ef til kemur að þurfi að loka sláturhúsinu tímabundið vegna Covid, að þá sé búið að slátra sem mest af lömbum.

Þetta eru undarlegir tímar og þurfum við að biðla til allra aðila að fara varlega hvort sem er starfsfólk, bændur og eða bílstjórar.

Til baka

Hafa samband