Skip to main content

Kaupfélag Skagfirðinga var stofnað 23. apríl árið 1889 af fulltrúum bænda úr þáverandi sveitarfélögum í Skagafirði og Bólstaðarhlíðarhrepps í Austur-Húnavatnssýslu. Framan af var félagið fyrst og fremst vörupöntunarfélag bænda, sem átti samstarf við enska sauðakaupmenn, en þeir keyptu fé á fæti og fluttu út og greiddu fyrir í gulli. Síðar tók fyrir sauðasöluna til Bretlandseyja og hófst þá útflutningur á saltkjöti, einkum til Noregs. Þar með hófust afskipti félagsins af afurðasölumálum bænda og slátrun búfjár.

Árið 1935 var svo stofnsett mjólkursamlag og hefur verið rekið samfleytt síðan. Mjólkurframleiðsla skagfirskra bænda hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum áratug sem og starfsemi Mjólkursamlags KS. Samlagið sérfhæfir sig í framleiðslu brauðosta, rifosta, mozzarella kúlna auk smjör og smjörlíkisframleiðslu.

Slátrun á vegum Kaupfélags Skagfirðinga hófst fljótlega um eða upp úr aldamótunum 1900. Fyrsta sláturhús á vegum félagsins var reist austan við Aðalgötuna á Sauðárkróki, gegnt Gránu, þar sem höfuðstöðvar KS voru frá 1904, síðar var byggt sláturhús austan Freyjugötu. Upp úr 1950 var svo hafist handa við að reisa húsasamstæðuna á Eyrinni, þar sem sláturhúsið og Fisk-Seafood eru til húsa í dag. Sláturhúsið var síðan endurbyggt á árunum 1972 og 1973. Á árunum 2000 – 2004 fór fram víðtæk endurnýjun á búnaði og vinnslulínum sláturhússins samhliða endurskipulagningu á vinnutilhögun. Kjötafurðastöð KS hefur sérhæft sig í sauðfjárslátrun og rekur nú eitt öflugasta og afkastamesta sauðfjársláturhús landsins.

Upphaflegt markmið Kaupfélags Skagfirðinga var að útvega félagsmönnum algengar neyslu- og rekstrarvörur með sem hagkvæmustum hætti. Var því verslun frá því fyrsta annar af tveimur meginþáttum starfseminnar fyrstu árin og áratugina. Hinn þátturinn sneri að afsetningu búvöruframleiðslu. Enn er verslunarrekstur veigamikill þáttur í starfsemi Kaupfélags Skagfirðinga sem rekur umfangsmikla verslunarþjónustu á Sauðárkróki, þar er helst vöruhúsið Skagfirðingabúð og Verslunin Eyri sem selur byggingavörur, ýmsar rekstrarvörur m.a. til bænda og áburð auk varahlutaverslunar og innflutningsverslunar. Félagið er með útibú á Hofsósi og í Fljótum sem og veitinga- og verslunarþjónustu í Varmahlíð.

Á árunum 1939 til 1945 varð mikil breyting á þjóðfélaginu hér á landi sem og víða annarsstaðar. Meðal þess var stórfelld aukning á beitingu ýmiskonar véltækni við atvinnuvegi og daglegt líf. Samgöngutækni gjörbreyttist og bifreiðaeign almennings varð smám saman regla í stað undantekningar og forréttinda. Þetta kallaði á nýja þjónustu og aukningu á þeirri sem fyrir var. Á þessum árum hófst verkstæðisrekstur á vegum Kaupfélags Skagfirðinga og var tilgangurinn í fyrstu að þjóna samgöngutækjum í eigu félagsins en smám saman vatt starfsemin upp á sig. Í fyrstu var starfsemin nær öll á því svæði norðan Freyjugötu þar sem áður höfðu verið slátur- og frystihús. Vélaverkstæði KS var lengst af rekið í nánu samstarfi við Bifreiðaverkstæði KS, en í byrjun tíunda áratugarins flutti starfsemin að Hesteyri á Sauðárkróki. Fékk verkstæðið þar með rúmgóð og hentug húsakynni fyrir starfsemi sína.

Þjónustuiðnaður er talsvert umsvifamikill og árið 2009 var opnaður nýr og fullkominn þjónustukjarni á Sauðárkróki, Kjarninn. Í Kjarnanum er vélaverkstæði, bifreiðaverkstæði, rafmagnsverkstæði og tölvufyrirtæki. Þar starfa um 90 manns og er uppistaðan af öllu starfsfólki iðnmenntaðir einstaklingar.

Árið 1955 var stofnað fyrirtækið Fiskiðja Sauðárkróks h.f., sem KS átti fyrst meirihluta í en síðan allt og starfaði það að fiskvinnslu á Sauðárkróki. Árið 1968 var Útgerðarfélag Skagfirðinga h.f. stofnað með aðild KS og var starfsemi þess og Fiskiðjunnar sameinuð árið 1989. Síðar var Hraðfrystihúsið Skjöldur h.f. á Sauðárkróki og Hraðfrystihús Grundarfjarðar h.f. á Grundarfirði keypt og voru fyrirtækin rekin sameiginlega undir nafninu Fiskiðjan Skagfirðingur hf. Á árinu 2004 var síðan Skagstrendingur hf. á Skagaströnd keyptur og sameinaður inn í Fiskiðjuna Skagfirðing hf. Síðan þá hefur sjávarútvegurinn verið rekinn undir nafni FISK Seafood.

Af öðrum fyrirtækjum sem KS er eignaraðili að má nefna flutningafyrirtækið Vörumiðlun ehf. sem gerir út á þriðja tug flutningabifreiða frá Sauðárkróki, Blönduósi, Skagaströnd, Hvammstanga og Hólmavík, auk ýmiskonar flutningatengdri þjónustu svo sem skipaafgreiðslu, sem sér um allar afgreiðslur og þjónustu við skip í Sauðárkrókshöfn. Ennfremur má nefna Tengil rafmagnsverksæði og gagnamiðlunarfyrirtækið Fjölnet ehf.