Siðareglur birgja og þjónustuaðila.
1. Markmið og gildissvið
Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og dótturfélög hafa sett siðareglur sem gilda fyrir alla birgja og viðskiptaaðila sem selja vörur eða þjónustu til Kaupfélags Skagfirðinga (KS) og dótturfélaga, beint eða óbeint og eiga sér stoð í sjálfbærnistefnu félagsins. Siðareglurnar miða að því að tryggja ábyrgan og sjálfbæran rekstur hjá samstæðunni sem og í virðiskeðju félagsins.
2. Lágmarkskröfur og lögmæti
Birgjar skulu hlíta öllum gildandi lögum og reglum sem gilda um starfsemi þeirra. Auk þess gera KS og dótturfélög kröfur til birgja og þjónustuaðila um eftirfarandi:
Umhverfismál
- Birgjar og þjónustuaðilar geri sér grein fyrir umhverfis- og loftslagsáhrifum frá starfsemi sinni og vinni að því að draga úr neikvæðum áhrifum með ábyrgum hætti.
- Meðhöndla skal úrgang á ábyrgan hátt og leitast við að endurvinna þar sem mögulegt er, í samræmi við viðmið og reglur hverju sinni.
- Birgjar sína ábyrga nýtingu auðlinda, hvort sem á við um vatn, raforku, landnotkun eða annað.
- Stuðla að verndun líffræðilegs fjölbreytileika og gæta að sjálfbærri landnýtingu.
Dýravelferð
- Virða líf, velferð og lífeðlislegar þarfir dýra í samræmi við lög nr. 55/2013 um velferð dýra. Í því felst m.a. að tryggja að dýr séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsl eða sjúkdóma.
- Dýr skulu hafa aðgang að nauðsynlegum húsakosti sem veitir skjól og þægindi.
- Forðast óþarfa lyfjanotkun og tryggja rekjanleika.
Félagslegir þættir
- Gerð er krafa um að birgjar virði alþjóðlega viðurkennd mannréttindi, sbr. Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og reglur um réttindi barna, sbr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og hafni með öllu mannréttindabrotum svo sem hvers kyns nauðungar- eða þrælkunarvinnu.
- Sinni öryggismálum skv. lögum um vinnuvernd og tryggi heilsusamlegt vinnuumhverfi fyrir starfsfólk sitt. Vinnuumhverfið stuðlar að jafnrétti og ekki er liðið einelti, ofbeldi, áreitni eða mismunun af neinu tagi.
- Virði félagafrelsi og kjarasamningsbundin réttindi starfsfólks á hverjum tíma.
Stjórnarhættir
- Stunda heilbrigða og lögmæta viðskiptahætti og vinni gegn spillingu á hvaða formi sem hún er og ekki í neinum tilfellum séu boðnar, greiddar eða þegnar mútur.
- Birgjar með fleiri en 10 starfsmenn séu með siða- og/eða starfsreglur sem eru aðgengilegar öllu starfsfólki og endurspegla ábyrgð, gagnsæi og heiðarleika.
- Eigi traust og fagleg samskipti við KS og dótturfélög og virði þagnarskyldu um trúnaðarupplýsingar.
KS leggur ríka áherslu á að birgjar sinni starfsemi af ábyrgð, heiðarleika og með sjálfbærni að leiðarljósi. Með þessari stefnu viljum við tryggja traust, gæði og velferð í allri virðiskeðjunni.
Með staðfestingu siðareglanna viðurkennir birgi að hann starfi í samræmi við siðareglur KS og dótturfélaga.